Í minningu Páls

Ávarp Vilhjálms Árnasonar við útför Páls frá Hallgrímskirkju 4. maí 2015

„[Ég] bið ykkur að hugleiða … hvar við erum stödd, hvað það merkir að við erum hér saman komin og hvers vegna við erum hér?“ Þessum spurningum varpaði Páll Skúlason eitt sinn fram í hugvekju sem hann flutti fyrir mörgum árum í safnaðarheimili Akureyrarkirkju, fæðingarbæ sínum. En hvatningin sem felst í því að hugleiða hvers vegna við erum hér, hafði í huga hans og skrifum almennt mun víðari skírskotun. Í texta, sem hann var að vinna að á síðustu vikum lífs síns, lýsir Páll þrenns konar reynslu sem hafi orðið til þess að hann kaus að leggja stund á heimspeki.

Þar segir hann um þriðju upplifunina að hún sé „fólgin í því að skynja tilvistina og sjálfan sig og raunar allan heiminn sem fáránlegan eða fjarstæðukenndan. Af hverju er ég yfirleitt til, af hverju er veruleikinn til, af hverju er eitthvað frekar en ekkert?“. Sú upplifun sem Páll lýsir hér varð honum látlaus hvati eða áskorun til heimspekilegrar hugsunar og þar gat bókstaflega allt orðið honum að ögrandi viðfangsefni. Hann gekkst heiðarlega og af hugrekki við upplifun fjarstæðunnar eins og sjá má af þeim orðum hans (svo ég vitni aftur í „Hugleiðingar í safnaðarheimili“) að við „lifum … kannski ævina alla, innilokuð í óvissunnar heimi um allan tilgang og merkingu. Og bíðum þess eins að á vitundarskarinu slökkni endanlega. En sannleikurinn er sá að á meðan á vitundarskarinu blaktir getum við reynt að lýsa upp þennan veruleika með alls kyns hugmyndum og kenningum“.

Í þessu textabroti lýsir Páll í raun bæði eigin lífsafstöðu og lífsverkefni. Fram á síðustu stund var hugsun hans sískapandi viðleitni til þess að lýsa upp veruleikann í heild sem og einstök viðfangsefni sín með alls kyns hugmyndum og kenningum. Þetta reyndist Páli sterkt haldreipi á síðustu mánuðum þar sem hann tókst á við illvígan sjúkdóm með hugfró heimspekinnar, en það er klassískt viðhorf að heimspeki leggi líkn við þrautir manna.Við vinir hans höfum með aðdáun fylgst með því hvernig hann hóf sig yfir hlutskipti hins fársjúka manns með heimspekiiðkun, skrifum og rökræðum. Með þessum hætti lifði Páll þá meginhugmynd tilvistarheimspekinnar, sem hann aðhylltist frá unga aldri, að blákaldar staðreyndir ákvarða aldrei merkingu aðstæðnanna.  

Í handritinu að nýju bókinni, Merking og tilgangur, sem Páll var að vinna að þegar hann lést, skrifar hann: „Tilvistin er aldrei fullmótuð, heldur stendur andspænis óvissu, endanleika sínum, dauðanum og spyr endalaust um merkingu og tilgang sem hún svarar með ákvörðunum sínum og vali.“ Hér leggur Páll áherslu á að með ákvörðunum sínum og vali gæðir einstaklingurinn aðstæður sínar merkingu sem hann ber sjálfur ábyrgð á. Fyrir vikið lifa menn sambærilegt hlutskipti oft með gerólíkum hætti, gefa því ólíka þýðingu með viðbrögðum sínum. Þó er afar mikilvægt að hafa í huga að aðstæður fólks eru ólíkar og Páll var svo lánsamur að Auður eiginkona hans studdi hann af ástríki. Auður gerði honum kleift að helga sig hugmyndavinnu og ritstörfum – tók raunar virkan þátt í þeim. Þau áttu langt og farsælt hjónaband og Páll naut þess að eiga samhenta fjölskyldu. Hann leit svo á að fjölskyldan hefði haft mest áhrif á hamingju sína, enda væri lífshamingjan öðru fremur fólgin í því að deila lífinu með góðu fólki og mynda traust tengsl við vini sína.

Í huga Páls var það verkefni að takast á við fjarstæðuna fjarri því takmörkuð við þá ábyrgð að gæða persónulegt líf sitt merkingu og tilgangi. Öðru nær: segja má að þessi ábyrgðarhugsun hafi einkennt allt hans lífsstarf og hann var stöðugt með hugann við að koma heimspekilegum hugsjónum í framkvæmd. Leiðarstefið í hugsun hans sem háskólarektors var krafan um að nýta þekkinguna til góðs fyrir samfélagið. Ein meginforsenda þess í hans huga var að gera sér skýra grein fyrir gæðum lífsins og móta hugsunarhátt og samræðusiði sem taka mið af þeim. Sjálfur hafði Páll unun af samræðum um þessi efni og var óþreytandi í viðleitninni til að virkja aðra til umhugsunar um þau. Menn voru vitaskuld mismóttækilegir fyrir því eins og gengur. Páll sagði mér einu sinni skondna sögu um samtal sem hann átti við rektor við bandarískan háskóla sem hann heimsótti. Þar sem þeir stóðu hátt og horfðu yfir háskólasvæðið spurði Páll þennan kollega sinn hvað væri í hans huga brýnasta verkefnið sem hann stæði frammi fyrir. Ekki stóð á svarinu: að fjölga bílastæðum. Sjálfur hafði Páll öllu háleitari hugmyndir um verkefni háskóla samtímans eins skrif hans bera glöggt vitni.

Páll hafði unun af því að fílósófera en sú ástríða hans kom sannarlega ekki niður á hæfni hans sem stjórnanda. Hann sóttist eftir stjórnunarstörfum og var rómaður fyrir stjórnvisku sína og stjórnlist. Eftir að hann lét af störfum sem rektor Háskóla Íslands var hann eftirsóttur ráðgjafi erlendis. Í hlutverki stjórnandans nutu mannkostir hans sín einkar vel. Sjálfur dáðist ég oft að því hvernig Páll hélt stillingu sinni við erfiðar aðstæður og ófrávíkjanlega sýndi hann viðmælendum sínum kurteisi og virðingu. Hann hafði næmt sálrænt innsæi og honum var einkar lagið að mæta fólki þar sem það var statt. Þetta virtist vera honum eiginlegt og hélst í hendur við þann kost sem ég mat hvað mest í fari hans: Páll var laus við allt yfirlæti. Hann sýndi öllum áhuga og kom fram við þá eins og jafningja. Þetta átti líka við um börn. Hann lagði ríka áherslu á að börn væru skynsemisverur og rækta þyrfti með þeim rökræðuhæfileikann frá fyrstu tíð. Meðal þess allra síðasta sem hann skrifaði voru drög að heimspeki handa barnabörnunum.

Mér virðist að yfirlætislaus framkoma Páls endurspeglist í þeirri afstöðu hans að heimspekileg yfirvegun sé sprottin af hugsun sem finna má meðal fólks á vettvangi hversdagsins. Þetta kann að vera ein meginástæða þess hve Páli var mikið í mun að rækta jarðveginn fyrir almenna heimspeki og breiða út fagnaðarerindið fyrir almenning. Í formálsorðum að Pælingum III, sem hann gekk frá til prentunar skömmu fyrir andlát sitt, skrifar hann: „[Ég] hlýt … að játa að ein ástríða hefur stundum tekið af mér völdin, en hún er sú að prédika eða flytja tiltekinn boðskap. Ég á ekki við að ég sé að boða ákveðna trú eða skoðun. Að vísu er ein sannfæring sem yfirgefur mig seint eða aldrei: Fólk á að leggja rækt við hugsunina bæði eigin og annarra. Við þurfum að temja okkur að hugsa saman, þá förum við að tala saman og taka vonandi góðar ákvarðanir saman.“ Það hefur að mörgu leyti verið gæfa íslenskrar heimspeki hve náin tengsl hún hefur myndað við samfélagið og í því verkefni hefur Páll Skúlason sannarlega verið í fararbroddi.

Páll var einstaklega hrifnæmur heimspekingur og sú stefna sem hugsun hans tók gat ráðist af síðasta viðmælanda, þótt úrvinnslan væri alltaf skapandi og í samræmi við meginstef í heimspeki hans sjálfs. Hann hafði jafnan þann hátt á þegar hann var að semja að senda drög til vina og leita eftir afstöðu þeirra og athugasemdum. Hann ráðfærði sig líka mikið við aðra um ákvarðanir. Í því tilliti kom sér oft vel hve fljótur hann var að tileinka sér nýjustu samskiptatækni og þótti honum afleitt ef vinir hans voru ekki græjuvæddir með sama hætti ef ná þurfti til þeirra. Sjálfur var hann vandaður yfirlesari, örlátur á hugmyndir og einstaklega ráðagóður. Örlæti hans birtist líka með ýmsum öðrum hætti, svo sem í mikilli ræktarsemi við vini sína. Hann var hlýr maður í samskiptum og hef ég heyrt marga nemendur minnast þessa eiginleika í fari hans jafnframt þeim áhrifum sem hann hafði á hugsun þeirra og hugmyndaheim. Það var ein grundvallarafstaða Páls í menntamálum að stuðla eigi að því að nemendum líði vel í skólanum og það ræðst ekki síst af viðmóti kennara. Skólar eiga að vera skjól fyrir uppbyggilega hugsun og samskipti.

Í forspjalli að bókinni Í skjóli heimspekinnar skrifar Páll að í þessum heimi sé „hvergi að finna fullkomið skjól fyrir þeim mörgu og misjöfnu vindum sem um veröldina leika“. Þegar Páll skrifar á þessum nótum hefur hann ekki einungis í huga skjól gagnvart manngerðu böli og ofbeldi heldur líka öflum náttúrunnar sem umlykja okkur og ógna öryggiskennd okkar. Náttúran varð smám saman fyrirferðarmeiri í heimspeki Páls og hefur þar tvíbenta stöðu: annars vegar er hún ótæmandi uppspretta gilda og verðmæta og hins vegar ógn við sjálfa tilvist okkar. Undir lokin fór að bera æ meira á því leiðarstefi í hugsun hans að móta þurfi andlegan skilning á náttúrunni til mótvægis við þá tæknidrifnu rányrkju sem menn ástunda og leiðir til þess að náttúran ógnar nú gervallri mannlegri tilveru.

Í lokakafla nýju bókarinnar um Merkingu og tilgang skrifar Páll: „Hér stendur Lífsvilji sjálfsverunnar órofa tengdur tilganginum andspænis Náttúrunni og veit að hann lýtur í lægra haldi nema honum takist að ná andlegu sambandi við Náttúruna,… tengja hana við tilganginn sem er að verki hvarvetna í heiminum. Að mínum dómi er uppbygging nýrrar tilgangshyggju mikilvægasta verkefnið sem við þurfum að sinna, ef við ætlum að leysa þau úrlausnarefni sem brenna á okkur um þessar mundir.“ Í huga Páls er í húfi sjálft „ævintýrið að vera til“, en hann notar gjarnan það skáldlega orðalag um mannlega tilveru.

Við þessi afdrifaríku viðfangsefni glímdi Páll á síðustu vikum lífs síns. Svo lengi sem vitund hans var virk – „meðan blakti á vitundarskarinu“, svo notað sé orðalag hans sjálfs – tókst hann af heimspekilegri ástríðu á við það verkefni að „lýsa upp þennan veruleika, sem að okkur berst með alls kyns hugmyndum og kenningum“. Þannig skráði hann sig inn í merkingarheiminn þar sem við getum vitjað hans um ókomin ár.

Með virðingu og þakklæti kveðjum við góðan vin sem auðgaði fyrir okkur ævintýrið að vera til.

Back to top