Gagnrýnin hugsun, heimspeki og heilsufar

Gagnrýnin hugsun, heimspeki og heilsufar með hliðsjón af dygðum og löstum í lífsstíl og gildismat nútímans

Erindi flutt laugardaginn 2. mars 2013 á málþingi Félags lýðheilsufræðinga: Um nauðsyn þess að tengja siðfræði og lýðheilsu

Við skulum byrja á dygðunum. Í mínum huga leikur ekki vafi á því að það hafa átt sér stað umtalsverðar siðferðilegar framfarir í heiminum á síðari tímum. Fólk hefur lært að hugsa betur um sjálft sig og nærsamfélag sitt og einnig hefur vitundin um að við tilheyrum öll eina og sama mannkyni vaxið um allan heim. Þessi þróun er tengd miklum breytingum á samskiptum fólks innan hvers samfélags og á milli þjóða og heimshluta. Hefðbundin stéttaskipting hefur riðlast, fjölskyldan tekið á sig breytta mynd og borgir og bæir hafa vaxið gífurlega. framfarir í tækni og ytri veraldlega velgengni sem af henni leiðir. framfarir í tækni og ytri veraldlega velgengni sem af henni leiðir. Ný tækni í framleiðslu, viðskiptum og í samskiptaháttum á vafalaust stóran þátt í þessum félagslegu breytingum, en allar stuðla þær að því að losa um hefðbundin tengsl og gera um leið auknar kröfur til einstaklinganna um að standa á eigin fótum og mynda tengsl við aðra af eigin frumkvæði.

Hinar siðferðilegu framfarir sem ég tel spretta af þessari þróun eru af þrennu tagi. Í fyrsta lagi vaxandi viðurkenning á því siðferðilega viðhorfi að líta beri á fólk sem persónur með tiltekin mikilvæg réttindi sem ávallt ber að virða. Í öðru lagi skipuleg sameiginleg viðleitni til að skapa skilyrði fyrir allan almenning til að njóta öryggis og verndar og tryggja þar með viss grundvallarréttindi allra. Í þriðja lagi mjög fjölbreytt mannúðar- og líknarstarf sem beinist að tilteknum minnihlutahópum sem lent hafa í sérstökum erfiðleikum. Fyrsta atriðið tengist beint mannrhið iðja ariði engist beint mannr hs og verndar og tryggja þar með viss grundvallarréttindum, annað atriðið velferðarsamfélaginu, en hið þriðja má tengja beint við mannúðarhyggju sem einkennist af aukinni samkennd með öðrum og lofsverðri viðleitni til að draga úr böli tiltekinna einstaklinga eða hópa og bæta líf þeirra.

Þessi jákvæða siðferðilega þróun helst að sjálfsögðu í hendur við tækniframfarir og ytri veraldlega velgengni sem af þeim leiðir. En það rýrir ekki gildi hennar, heldur skýrir að unnt var að beina sjónum að því sem betur mætti fara í mannlegum samskiptum, bæta almenn lífsskilyrði og sinna margvíslegum sérþörfum. Ef nota ætti eitt hugtak um þessa siðferðisþróun, þá myndi ég nefna „mannúð“. Þetta er nátengt viðleitni til að bæta allan ytri aðbúnað í lífsháttum, sigrast á landlægum sjúkdómum, hvetja fólk til að hugsa um heilsu sína og lifa lífinu skynsamlega, mennta sig og börn sín. Sú andlega hreyfing sem að baki býr er mannúðarstefna upplýsingarinnar sem vill nýta sér vísindi og tækni til að stuðla að betra mannlífi.

En siðferði í anda mannúðar hefur sínar takmarkanir. Það er fólgið í jákvæðri viðleitni til að draga úr böli og bæta hlutskipti tiltekinna hópa. Spurningin snýst ekki um það hvort ásetningur sé vafasamur eða ekki – hann er lofsverður í langflestum tilfellum. Spurningin er hvort viðleitnin byggist á réttum skilningi á aðstæðunum og vandanum sem við er að etja og þá jafnframt á réttu mati á getu okkar til að takast á við hann. Siðferði okkar er fjarri því að vera einfalt félagslegt fyrirbæri. Það einkennist af boðum og bönnum, dygðum og löstum, en það er umfram allt grundvallað á skilningi á tilteknum gildum og gæðum sem öllu skipta í samskiptum okkar. Ásetningur um að láta gott af sér leiða getur hæglega leitt til rangrar breytni ef skilninginn skortir á því sem máli skiptir í viðkomandi aðstæðum.

Skilningurinn sem hér um ræðir er grundvallardygð siðferðisins og kallast í daglegu tali „viska“. Viskan er fólgin í því að vita hvaða verðmæti skipta almennt séð mestu og hvernig á að gæta þeirra í tilteknum raunverulegum aðstæðum. Viska er vitsmunaleg dygð og er að því leyti ólík hugrekki, hófsemi, örlæti, mannúð og umhyggjusemi sem menn geta verið ríkulega gæddir án þess að teljast vitrir í siðferðilegum skilningi. Til að öðlast visku þurfa menn að  skilja hugsunarhátt, gildismat og lífsstíl fólks og um leið það sem stendur siðferði þess og hamingju fyrir þrifum.

Þetta höfum við nútímamenn bara alls ekki gert af þeirri alvöru, alúð og einbeitingu sem nauðsynleg er. Meðal margra fornþjóða urðu til siðferðilegir skólar sem miðuð að því að kenna fólki að rækta með sér heilbrigt siðferði. Frægir eru skólar epíkura og stóumanna, og meðal Kínverja ber hæst skóla Konfúsíusar sem blómstraði um árhundruð og er nú verið að endurreisa í Kína og víðar. Ein skýringin á því að siðferðisskólar af þessu tagi hafi lítt dafnað á Vesturlöndum á síðari öldum er einokunaraðstaðan sem kristin kirkja fékk varðandi boðun siðferðis. Þar með var siðferðið bundið trúarlegum boðskap sem fólki var kennt að það þyrfti að fallast á til þess að rækta siðferði sitt. „Ef guð er ekki til, þá er allt leyfilegt“, er haft eftir einni hetju Dostojevskís, og þessi boðskapur hefur bergmálað hvarvetna þar sem kristinn siður hefur fest rætur. Guð kristinnar trúar væri fyrst og fremst siðgæðisvörður. Og guðleysingjar væru siðleysingjar.

Nú eru sennilega fáir sem trúa þessu í alvöru – hvort sem þeir trúa á guð kristninnar eða ekki. En þessi fjarstæðukennda kenning er dæmigerð fyrir ógöngur þeirrar siðfræðifræðslu sem gengur út frá tilteknum trúarlegum forsendum. Ef guðstrú í kristnum skilningi er forsenda siðferðis, þá væri þorri mannkyns siðlaus og hefði alltaf verið.

En það eru fleiri fordómar sem hafa staðið iðkun siðfræði fyrir þrifum. Einn er sá að siðferði tileinki menn sér fyrst og fremst með því að haga sér í samræmi við fordæmi uppalenda sinna – og þess vegna sé siðfræðikennsla óþörf í skólakerfinu. Annar er sá að bæði bóklegt og verklegt nám stuðli óbeint að siðferðisþroska rétt eins og iðkun íþrótta og þátttaka í félagslífi – þess vegna sé ástæðulaust að leggja á nemendur að læra siðfræði sérstaklega. Fyrri hluti beggja þessara fordóma er réttur – en ályktunin eða dómurinn sjálfur rangar. Við tileinkum okkur vissulega siðferði þess samfélags sem við tilheyrum – en til að þroskast sem siðferðisverur þá þurfum við að yfirvega, rannsaka og skilja þetta siðferði sem að okkur er haldið.

Höfuðsynd okkar nútímamanna er að hafa vanrækt siðfræðina sem er nauðsynleg til að vinna gegn siðferðisböli og bæta siðferði okkar. Hvernig stendur á þessari djúpstæðu vanrækslu? Ég hef nefnt einokunaraðstöðu kirkjunnar varðandi siðferði og siðfræði. Eina almenna siðfræðifræðslan í landinu sem mér er kunnugt um hefur farið fram í tengslum við undirbúning fermingarinnar. Öll ungmenni áttu að tileinka sér hin kristnu boðorð og læra kristilega siðfræði. Ég er ekki í vafa um þessi fræðsla hefur skipt máli og átt þátt í að móta siðferðið á jákvæðan hátt. Hinn kristni siðaboðaskapur hefur gegnsýrt vestræna menningu og lífsviðhorf og allar siðfræðilegar rannsóknir og siðfræðikennsla hljóta að taka mið af honum. En kjarni málsins er sá að hann kemur ekki og getur ekki komið í stað eiginlegrar siðfræði sem er heimspekileg og mannvísindaleg rannsókn á mannlegu siðferði.

Ég nefndi einnig tiltekna fordóma sem endurspegla raunar hefðbundna íhaldsemi í siðferðilegum efnum. Við búum ævinlega við ákveðið viðtekið siðferði sem okkur er tamt á að líta á sem hið eina rétta siðferði og telja að það sem máli skipti sé að börnin tileinki sér það. En eitt neikvætt einkenni viðtekins siðferðis er að fólk venur sig á að umbera og þola alls kyns ósiði til þess að forðast deilur og átök. Það þarf oft mikið að ganga á áður en fólki ofbýður og fer að skipta sér af vondu eða spilltu siðferði sem viðgengst í samfélaginu. Þess vegna er svo mikilvægt að viðtekið eða hefðbundið siðferði sé yfirvegað og rannsakað, dygðir og lestir greind vandlega, og fjallað skipulega um þá siði og ósiði sem einkenna ríkjandi siðferði. Þetta er eina leiðin til að stuðla markvisst að siðferðilegum umbótum.

Til viðbótar því sem ég hef þegar rakið vil ég benda á tvennt sem mér virðist að skipti máli til skilnings á því hvers vegna siðfræði hefur verið vanrækt í samfélagi okkar og ekki sinnt sem skyldi hvorki í háskólum né á öðrum skólastigum. Þessi tvö atriði eru nátengd.

Hið fyrra tengist þeirri gífurlegu tæknivæðingu samfélagsins og hugarfarsins sem orðið hefur á síðustu tveimur öldum og alveg sérstaklega á síðustu áratugum. Netið með sínum ótal samskiptaformum og forritum er síðasta dæmið um tækni sem hefur nú þegar feikileg áhrif á það hvernig fólk myndar tengsl, aflar sér og miðlar upplýsingum og hugmyndum. Ein mikilvægasta afleiðing þessarar tæknivæðingar – sem hefur umbylt öllum ytri aðstæðum okkar – er fólgin í því að rökvísi tæknilegrar hugsunar hefur orðið ráðandi í menningu okkar. Sú rökvísi er fólgin í viðmiðunum um það sem er hagkvæmt, skilvirkt og árangursríkt – og umfram allt rekjanlegt, mælanlegt og útreiknanlegt. Hún snýst um aðferðir og leiðir til að ná tilteknum, fyrirfram ákvörðuðum markmiðum. Siðferðileg hugsun lýtur ekki rökvísi tækninnar heldur felst í að yfirvega viðmiðanir um það sem er til góðs fyrir mannleg samskipti og stuðlar að réttlátu samfélagi.

Hvar sem tæknileg hugsun tekur völdin er hættan sú að viðmiðanir hinnar siðferðilegu hugsunar verði settar til hliðar vegna þess að þær falla ekki að rökvísi hinnar tæknilegu hugsunar. Réttlæti, ást og frelsi – ásamt vináttu, tillitsemi, virðingu og þroska – eru ekki mælanlegar stærðir í menningu okkar, heldur hugtök sem veita skilning á því sem  mestu skiptir i mannlegum samskiptum. Þess vegna beitir tæknileg hugsun sér ekki að þessum gildum og er í þeim skilningi öldungis sið-laus.  

Hitt atriðið sem kann að valda vanrækslu siðfræðinnar er einfaldlega sú staðreynd að siðferðið er flókinn veruleiki sem við eigum í basli með að ná tökum á og gefumst jafnvel upp við að reyna að skilja. Með öllum sínum innri gildum og verðmætum stendur siðferðið okkur svo nærri að það má jafnvel leggja það að jöfnu við skapgerð og persónuleika okkar sjálfra. Þess vegna getur verið mjög erfitt að greina bæði eigið siðferði og annarra og jafnvel útilokað án þess að hafa öðlast víðtæka og djúpa mannþekkingu og sjálfsþekkingu. Siðferðið kallar þannig á persónulega yfirvegun og alvarlegar samræður við fólk, sem maður treystir, þar sem reynir á hæfni til að átta sig á eigin löngunum og annarra. Síðan þarf að taka afstöðu til þess hvort þær séu réttmætar eða skaðlegar manni sjálfum eða öðrum. Hér reynir á að hugsa af heilindum og réttsýni um þau verðmæti sem í húfi eru í samskiptum okkar og samfélagi.

Þetta tvennt – tæknivæðing menningar og hugarfars og vandi siðferðilegrar hugsunar – kann að vera meginskýringin á því sem ég kallaði höfuðsynd samtímans, nefnilega að vanrækja viskuna. Þessi höfuðsynd birtist skýrast í þeim ámælisverða ósið að leiða skipulega hjá sér að hugsa siðfræðilega um siðferði og þar með þau málefni þar sem taka þarf afstöðu til ólíkra langana, hvata og hagsmuna og komast að niðurstöðu um það hvernig má stuðla að heilbrigðu líf og hamingjusömu í tilteknu samfélagi.

Þessi löstur felst í því að leiða skipulega hjá sér að yfirvega og rannsaka hvað er réttmætt eða óréttmætt í hugsun okkar og hegðun almennt í samfélagi okkar og samskiptum. Í stað þess að iðka gagnrýna hugsun þá kjósum við að fylgja ríkjandi siðum, lífsstíl og gildismati þess hóps sem okkur fellur best í geð og náum að falla inn í.

En hvað kemur þetta lýðheilsu við? Rétt eins og hver hugsandi einstaklingur þarf að gæta að heilsu sinni þarf þjóðin að gera slíkt hið sama. Lýðheilsufræði skil ég sem skipulega viðleitni til að skýra og skilja hvernig fólk getur hugsað skipulega um heilsufar sitt í því skyni að bæta það, ekki síst með því að draga úr óheilbrigðum lífsháttum. Rétt eins og hver einstaklingur er gæddur líkama og sál, þá er þjóðin líka í senn andlegur og líkamlegur veruleiki sem við köllum í daglegu tali „samfélag“. Og rétt eins og alls kyns langanir og hugsanir bærast með hverjum einstaklingi, þá setja alls kyns langanir og hugmyndir svip sinn á samskipti okkar og samfélag.

Meginvandi okkar hvort heldur sem einstaklinga eða þjóðar er að yfirvega og skoða eigin veruleika í því skyni að átta okkur betur á því sem getur stuðlað að góðri heilsu og hamingjusömu lífi. Á þessum vanda verður einungis tekið með gagnrýninni hugsun sem einbeitir sér að því að rannsaka og skilja lífshætti okkar og gildismat og tefla svo fram rökstuddum kenningum um það hvernig má bæta líf okkar bæði sem einstaklinga og sem þjóðar.

Fyrstu hugtökin sem hér verða fyrir okkur eru heilsa og hamingja. Ástæðan fyrir því að ég nefni þessi tvö hugtök í sömu andrá er sú að siðfræðilega séð eru þau órofa tengd. Hamingjan er fólgin í því að njóta gæða lífsins. Ef við missum heilsuna er hætta á því að við fáum ekki notið margvíslegra gæða sem gefa lífinu gildi. Góð heilsa hefur þannig mikilvæg áhrif á hamingju okkar, þótt hún nægi að sjálfsögðu ekki til að gera okkur hamingjusöm. Heilsugott fólk er ekki endilega hamingjusamt! En meginástæðan fyrir því að hugsa vel um heilsu sína og annarra er engu að síður sú að hún skiptir höfuðmáli fyrir hamingju okkar bæði sem einstaklinga og þjóðar. Þess vegna eigum við skoða heilsufarsleg málefni í ljósi hamingjufræða – það er að segja hvernig heilsusamlegt líferni getur stuðlað að aukinni hamingju. Eitt helsta verkefni siðfræðinnar er einmitt að skýra mikilvægustu gæði lífsins, hvernig við fáum notið þeirra og orðið hamingjusöm. Þess vegna eiga lýðheilsufræði, eins og öll önnur heilbrigðisvísindi, að vera stunduð með hliðsjón af siðfræðinni.

Hér vil ég aftur minna á þær siðferðilegu framfarir sem átt hafa sér stað í heiminum að undanförnu. Þær tengjast ekki síst því að fólk hugsar um heilsu sína og annarra af miklu meiri kostgæfni en áður fyrr. Það stundar heilsu- eða líkamsrækt í stórum stíl; borðar holla fæðu og gætir hófsemi í mat og drykk. Jafnframt leitast  fólk við að njóta lífsins með samneyti við félaga sína í frístundum sínum. Göngu- og hlaupaklúbbar eru eitt dæmi þar sem þetta tvennt fer saman – líkamsrækt og félagsrækt. Og þetta tel ég bera merki jákvæðrar siðferðisþróunar.

Nú kynni einhver að vilja gagnrýna mig með því að benda á að það sem ég kalla hér „siðferðilegar framfarir“ stafi ekki af neinu öðru en aukinni þekkingu á því hvað sé hollt og af miklu betri aðstöðu til að sinna heilsu sinni en áður var fyrir hendi. Þess vegna sé ekki um eiginlegar framfarir í siðferði að ræða, heldur framfarir í vísindum og tækni sem hafi orðið til þess að fólk lifir betra lífi!

Ég get fallist á þetta að vissu marki. Þetta er í samræmi við þá siðferðisþróun sem ég kenndi við „mannúð“ í upphafi þessa lestrar. Þessi þróun varð vegna þess að við öðluðumst efnisleg gæði og tæknilega kunnáttu til að bæta lífsskilyrði okkar og þar með til að láta gott af okkur leiða fyrir þá sem þjást og hafa orðið undir í lífinu. Þess vegna má með réttu segja að það sé beiting tæknilegrar hugsunar sem sé forsenda þessara framfara sem ég hef leyft mér að kalla „siðferðilegar“ af því að þær stuðla að því að bæta lífsskilyrði manna og þjóða og auka vellíðan fólks.

En stuðla þessar framfarir í lífsstíl og lífsháttum sannarlega og sannanlega að því að auka á hamingju manna og þjóða og gera okkur að ábyrgari og þroskaðri siðferðisverum í alla staði? Ég tel að svo geti vissulega verið – en þá þurfi líka annað og meira að koma til en mannúð og heilsurækt. Það þarf heildstæða og skipulega úttekt á siðferði okkar bæði í einkalífi og í starfslífi og ekki síst á siðferði okkar í helstu atvinnugreinum og stjórnmálum. Slík úttekt verður einungis unnin á siðfræðilegum forsendum þar sem byggt er á skýrum hugtökum um þau siðferðisgildi sem mestu skipta og ýtarlegri greiningu á þeim dygðum og löstum sem setja svip sinn á samskipti okkar. Slík úttekt á að kynda undir heimspekilegum umræðum um hamingjuna sjálfa og skilyrði þess að fólk geti lifað farsælu líf á Íslandi og leitast við að þroska sjálft sig og börnin sín.

Þjóðin hafði svo sannarlega ástæðu til að kalla eftir slíkri úttekt eftir hrun bankanna og fjármálakerfisins. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var fyrsta skrefið í slíkri úttekt. Núverandi endurskoðun námskrár í grunnskólum og framhaldsskólum í því skyni að efla gagnrýna hugsun og kennslu í siðfræði er liður í menntaátaki þar sem horft er til framtíðar. Átak innan Háskóla Íslands í því að tvinna siðfræðikennslu inn í allt faglegt nám er af sama meiði. Alla viðleitni til að efla lýðheilsu í landinu á að skoða sem lið í þessari sömu baráttu fyrir bættum lífsháttum, betra siðferði og þroskaðri siðferðishugsun – ekki aðeins í tilteknum greinum eða á tilteknu sviði heldur almennt í þjóðfélaginu.

Eina leiðin til að vinna í þessum anda er að hefja merki siðfræðinnar á loft í anda þeirra spekinga sem lögðu grunn að siðfræði löngu fyrir Krists burð. Siðferðileg viska er fólgin í að vita almennt hvað er til góðs – til að mynda að andlegt heilbrigði skiptir meira máli en hið líkamlega, að þroski sálarinnar er mikilvægari en líkamlegt atgervi, að veraldargæði leiða ekki til hamingju ef heimskulega er með þau farið, að hrokafull framkoma valdamanna veldur samfélaginu miklum skaða svo nokkur einföld dæmi séu nefnd. Flóknara dæmi er að réttlæti og virðing skipta máli í öllum samskiptum okkar, að ást og vinátta skipta mestu í nánum tengslum, og að sjálfræði og dómgreind skipta sköpum fyrir samskipti manns við sjálfan sig.

Sannleikurinn er sá að við búum yfir heilmikilli þögulli siðferðisþekkingu sem við nýtum ekki nema að litlu leyti til að bæta samfélag okkar vegna þess að við höfum ekki fræðilegt vald á henni. Við höfum ekki lagt stund á þær siðfræðilegu rannsóknir sem eru nauðsynlegar til þess að við getum gert skýra grein fyrir þeim löstum sem spilla samfélagi okkar og og tekið skipulega á þeim. Við höfum vanrækt – nánast skipulega – að leita þeirrar visku sem við þörfnumst mest.

Rétt eins og verkefni tæknifræðilegra greina er að finna og hanna kerfi til að auðvelda okkur að framkvæma það sem við viljum gera á skilvirkan hátt, þá er verkefni siðfræðinnar að finna hvað má betur fara í samskiptakerfum okkur og móta leiðir til að draga úr ranglæti og siðferðilegum afglöpum. Við höfum svo sannarlega ekki setið auðum höndum hvað tæknina varðar – en við þurfum að leggja miklu meira á okkur í siðfræðinni ef við viljum bæta samskipti okkar og samfélag að öllu leyti.

Viljum við það? Þessi spurning virðist svara sér sjálf – auðvitað viljum við öll að hér verði betri samskipti milli manna og þar með betra samfélag. En ég minni á það sem við vitum líka öll: Ásetningurinn einn dugar ekki – það verður stöðugt að beita gagnrýninni hugsun í því skyni að skerpa hugtökin og komast að þeim staðreyndum sem máli skipta. Hér dugar ekki heldur almenn og óljós siðferðileg þekking, heldur verður viska okkar að byggjast á rannsóknum á raunverulegu siðferði okkar. Hér þurfa ekki aðeins heimspekingar að eiga hlut að máli heldur fólk í öllum fræðigreinum bæði í hug- og félagsvísindum og í náttúruvísindum og heilbrigðisgreinum.

Siðfræðin er vissulega sjálfstæð fræðigrein en hún á sér tilteknar heimspekilegar forsendur rétt eins og allar aðrar greinar sem nauðsynlegt er að taka mið af. Meginforsendan er sú að við mennirnir séum siðferðisverur – að siðferðið sé samofið lífi okkar og tilveru rétt eins og tungumálið. Og rétt eins og við getum vandað mál okkar og reynt að setja hugsanir okkar fram skýrt og skilmerkilega eða ekki – , þá getum við lagt okkur eftir að rækta siðferði okkar og bæta eða beinlínis vanrækt það og leyft því að spillast.

Að vera siðferðisvera merkir ekki að maður vilji sjálfkrafa gera það sem er rétt og gott í siðferðilegu tilliti. Að vera siðferðisvera merkir að maður getur valið að gera öðrum gott eða illt. Sú kenning Sókratesar að sá sem geri öðrum illt valdi sjálfum sér mestum skaða kann að vera rétt. En sannleikurinn er sá að menn breyta ekki endilega eftir því sem þeir telja best fyrir sjálfa sig. Iðulega gerir fólk sér heldur enga grein fyrir því hvað er hollt eða gott fyrir það sjálft eða aðra. Sennilega breytir fólk oftast eftir því hvernig það telur að aðrir breyti án þess að pæla mikið í því hvað mestu skipti fyrir það sjálft eða aðra. Við hugsum eðlilega mest um það að fullnægja daglegum líkamlegum þörfum rétt eins og önnur dýr. Við höfum hins vegar þann hæfileika umfram önnur dýr að geta hugsað um veruleikann óháð okkar eigin þörfum og hvötum – og þar með skilið ekki aðeins þarfir og hvatir annarra dýra, heldur hvað þarf almennt og yfirleitt til að gera jarðlífið betra.

En nýtum við þennan hæfileika okkar sem skyldi? Engan veginn. Við erum í daglegu lífi svo upptekin af því að fullnægja líkamlegum hvötum okkar og þörfum að við gefum okkur ekki ótilneydd tíma til að hugsa af alvöru og heilindum um það hvernig við getum stuðlað að eigin þroska og annarra.

Þetta náttúrulega ósjálfstæði okkar í hugsun og hegðun veldur því að siðferðilegt uppeldi og menntun er mikilvægasta verkefni mannkyns. Þetta hafa menn vitað frá örófi alda, en hafa samt alltaf átt í basli með að sinna þessu verkefni sem skyldi. Það er heldur engin töfralausn til – önnur en sú að hamra á því að siðferði okkur mun aldrei skána ef við leggjum okkur ekki fram við að gagnrýna lesti okkar, skilgreina hamingjuna og halda fram þeim gildum sem gera lífið þess virði að því sé lifað.

Ég nefndi í upphafi máls mín að ég teldi að umtalverðar siðferðilegar framfarir hafi átt sér stað á liðnum árum. Þær megi að miklu leyti rekja til breyttra lífshátta fyrir tilstuðlan nýrrar tækni við að leysa hverskyns vandamál í samfélaginu. Þessi siðferðisþróun er í anda mannúðar og aukinnar samkenndar og lýsir sér í viðleitni fólks til að láta gott af sér leiða. Þrátt fyrir þetta höfum við ekki lagt okkur eftir þeirri dygð sem mestu skiptir í siðferðinu, nefnilega hinni siðferðilegu visku. Við höfum vanrækt siðfræðina sem felst í gagnrýninni yfirvegun á raunverulegu siðferði með skipulegum rannsóknum og úttektum sem eiga að leiða til siðferðilegra umbóta. Ég rakti ýmsar skýringar og nefndi nokkra fordóma sem hafa staðið siðfræðinni fyrir þrifum. Sá löstur sem berjast verður skipulega gegn felst í því að veigra sér við að yfirvega og gagnrýna það sem er óréttmætt í hugsun okkar og hegðun og kjósa að fylgja ríkjandi siðum og gildismati þess hóps sem manni fellur best í geð.

Boðskapur minn er því sá að lýðheilsufræði – og þar með talin öll skipuleg heilsurækt einstaklinga, hópa og þjóðarinnar í heild – beri að hugsa og móta í ljósi siðfræðilegra rannsókna þar sem hugtökin heilsa og hamingja eru tengd saman. Almenn og óljós siðferðisþekking dugar ekki. Tæknileg hugsun sem orðin er svo áhrifamikil í samfélagi okkar flytur engan siðferðisboðskap. Hún fæst eðlilega ekki við flókin hugtök og gildi  á borð réttlæti, ást og frelsi – og getur jafnvel orðið til þess að við leiðum þessi hugtök hjá okkur af því að við höfum ekki lært að beita þeim. Þess vegna eigum við ekki nema einn kost: Hann er sá að stórefla rannsóknir og fræðslu um siðferði og siðferðileg úrlausnarefni – og leggja okkur sérstaklega eftir að skilja hvernig skipuleg lýðheilsufræðsla og heilsurækt megi stuðla að siðferðisþroska og eiginlegri hamingju íslenskrar þjóðar.

Páll Skúlason

 

Gagnrýnin hugsun, heimspeki og heilsufar


Back to top