Ávarp í Alþingishúsinu 17. júní 2001

Forseti Íslands, forseti Alþingis, menntamálaráðherra, alþingismenn, aðrir góðir hátíðargestir.

Árið 1842 komst Jón Sigurðsson svo að orði í tímariti sínu Nýjum félagsritum:

“Það eru einkum þrjú efni, sem oss Íslendingum standa á mestu að útkljáð verði bæði fljótt og vel: það er alþingismálið, skólamálið og verzlunarmálið. Undir því hvernig þess mál verða kljáð, hvernig þetta þrennt kemst á fót, er að miklu leyti komin framför vor og að vísu það, hvað bráðgjör hún verður. Alþingi á að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann, skólinn á að tendra hin andlegu ljós og hið andlega afl og veita alla þá þekkingu, sem gjöra má menn hæfilega til framkvæmdar öllu góðu, sem auðið má verða, verzlunin á að styrkja þjóðaraflið líkamlega, færa velmegun í landið, auka og bæta atvinnuvegi og handiðnir og efla með því aftur hið andlega svo það verði á ný stofn annarra enn æðri og betri framfara og blómgunar eftir því, sem tímar líða fram.”

Þau þrjú stórmál, sem Jón Sigurðsson nefndi á þessum árdögum sjálfstæðisbaráttunnar – alþingismálið, skólamálið og verzlunarmálið – eru enn í fullu gildi og munu verða á meðan íslensk þjóð vill eflast og þroskast sem sjálfstæð heild. Verkefnin voru ærin fyrir rúmlega 150 árum og þau hafa raunar síst minnkað, þótt aðstæður séu aðrar. Verkefni Alþingis að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann kann að vera enn vandasamara nú en þá. Verkefni skólans að tendra hin andlegu ljós og veita alla þá þekkingu sem almenningur þarfnast hefur aldrei verið brýnna en nú. Og verkefni verslunarinnar að bæta atvinnuvegi og tryggja lífskjörin í landinu hafa aldrei verið fjölbreyttari og flóknari en á síðustu árum.

Athyglisvert við málflutning Jóns eru tengslin sem hann sér á milli hinna þriggja grundvallarstoða þjóðfélagsins. Endurreisn Alþingis, efling skólans og aukið frelsi í viðskiptum og atvinnulífi – allt þetta fer í hans huga saman. Hann tengir Alþingi og skólana við hið andlega, en verslunina og atvinnuvegina við hið líkamlega. Með því “að styrkja þjóðaraflið líkamlega” eflir verslunin hið andlega svo það leiði til enn nýrra framfara og blómgunar mannlífsins.

Með endurreisn Alþingis 1845 eignaðist íslenska þjóðin mikilvægasta tæki sitt til að vekja þjóðina til vitundar um sjálfa sig, skapa henni vilja og leið til að taka ákvörðun sem ein andleg heild.

Með stofnun Háskóla Íslands 1911 eignaðist íslenska þjóðin mikilvægasta tæki sitt til að tendra hin andlegu ljós og hið andlega afl meðal þjóðarinnar svo hún öðlist þekkingu og skilning sem gerir fólk hæfara til að láta gott af sér leiða í öllum greinum.

Tvennt ber í mínum huga hæst í sögu þjóðarinnar á nýliðinni öld. Annað er mótun lýðræðislegs réttarríkis. Hitt er sívaxandi beiting fræðilegrar og tæknilegrar hugsunar á öllum sviðum og í öllum greinum þjóðfélagsins. Og þetta tvennt helst í hendur: Hið lýðræðislega réttarríki hvílir á því að þjóðfélagsþegnarnir viðurkenni eigið frelsi og annarra og vilji að almannahagur sé tryggður með lögum. Beiting fræðilegrar og tæknilegrar hugsunar hvílir á því að hver manneskja sé frjáls til að trúa hverju sem hún vill svo fremi hún sé fús til að skýra mál sitt og styðja það rökum. Lýðræðið og fræðin krefjast þess að við séum sem ábyrgir þjóðfélagsþegnar reiðubúin til að taka þátt í opinberri umræðu um öll mál sem lúta að réttlæti og sannleika. Hið rétta og hið sanna eru leiðarljós okkar sem hugsandi þjóðfélagsþegna. Glæsilegasta fyrirmynd okkar í þessum efnum er sjálfstæðishetja okkar Íslendinga, Jón Sigurðsson, sem sameinaði í öllum málflutningi sínum pólitískan eldmóð og fræðilega, gagnrýna hugsun. Án hins pólitíska eldmóðs hefði fræðileg hugsun hans aldrei náð að hefja sig til flugs og vekja fólk til umhugsunar og árangursríkra athafna - en án hinnar fræðilegu, gagnrýnu hugsunar Jóns er hætt við að pólitískur eldmóður hans hefði koðnað niður í innantóma skrúðmælgi. Við höfum átt því láni að fagna að eignast forystumenn sem fetað hafa í fótspor Jóns og orðið í senn góðir fræðimenn og góðir stjórnmálaleiðtogar. Störf þeirra hafa sett svip sinn bæði á Alþingi og Háskólann.

Alþingi hefur gegnt lykilhlutverki við að móta Ísland sem lýðræðislegt réttarríki er stefnir að því að tryggja þegnum sínum þau réttindi sem eru forsenda þess að þeir geti nýtt sér frelsi sitt til að móta í senn eigið líf og þjóðlífið í sínum mörgu myndum.

Háskóli Íslands hefur gegnt lykilhlutverki við að mennta fjölda fólks til að beita fræðilegri og tæknilegri hugsun við þau fjölmörgu úrlausnarefni sem leysa hefur þurft í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðarinnar, í heilbrigðismálum, í mennta- og menningarmálum, í samfélagsmálum sem og hvers kyns verklegum framkvæmdum.

Hvað mun framtíðin bera í skauti sér? Alþjóðleg tækni, alþjóðlegt hagkerfi, alþjóðleg stjórnmál, alþjóðlegir lífshættir og hugsunarmáti bæði ógna smáþjóðum og opna þeim nýja möguleika til að þroskast og dafna.

Munu Alþingi Íslendinga og Háskóli Íslands eiga jafn brýnt erindi við íslenska þjóð á tímum alþjóðavæðingar og þau hafa haft til þessa? Eða mun fólkið sem býr á Íslandi kjósa að fara aðrar leiðir til að tryggja hagsmuni sína sem frjálsir einstaklingar en þær að standa vörð um og efla þjóðþingið og þjóðskólann?

Í nútímanum er ekkert sjálfgefið eða sjálfsagt. Í þeirri umbyltingu sem nú á sér stað í veröldinni verðum við Íslendingar – bæði sem sjálfstæðir einstaklingar og sem sjálfstæð þjóð – að yfirvega vandlega hvaða leiðir við viljum fara. Við skulum taka því vakandi sem að höndum ber. Tölfræðin segir að íslensk tunga ráði ekki við tæknina sem nú fer tröllshöndum um heiminn. Við séum einfaldlega of fá og smá. En tölfræðin þekkir líka takmörk sín. Hún fræðir okkur um ýmsar staðreyndir og gefur vissar forsendur til ákvarðana. Og sama gera aðrar fræðigreinar. Þær skilja okkur allar eftir í óvissu um leið og þær halda okkur vakandi og opna augu okkar fyrir staðreyndum sem við getum stundum breytt, ef við kærum okkur um það og treystum okkur til þess. Ein alkunn niðurstaða í sagnfræði og þjóðfélagsfræðum er sú að þjóðir deyi hratt ef helstu stofnanir þeirra hrörna.

Það þarf ekki að verja nema andartaki í eina fræðilega ályktun:

Eigi íslensk þjóð að lifa af, dafna og vaxa sem sjálfstæð heild sem hefur tök á sínum innri málum verður hún að hlúa markvisst að þeim stofnunum sem mestu skipta fyrir sjálfstæði hennar í andlegum sem veraldlegum efnum.

Stúdentar Háskóla Íslands eru að hrinda af stað þjóðarátaki til að efla skólann svo hann rísi áfram undir því nafni að vera það sem Jón Sigurðsson sá fyrir sér – sannkallaður þjóðskóli sem vinnur í þágu allra þjóðfélagshópa. Skólamálið sem Jón nefndi svo snérist um þetta: Að tryggja menntun og hag allra Íslendinga að öllu leyti og þar með menningarlegt, stjórnmálalegt og efnahagslegt sjálfstæði þeirra um ókomna tíð.

Er hugsanlegt að við þurfum líka átak meðal þjóðarinnar til að auka veg og virðingu Alþingis svo það öðlist aukinn mátt til að vekja þjóðarandann, þann vilja og styrk sem þarf til þess að við verðum áfram við sjálf – verðum Íslendingar – um leið og við tökum af fullum krafti þátt í alþjóðavæðingu veraldarinnar sem sjálfstæðir einstaklingar og sjálfstæð þjóð í senn?

Um leið og ég þakka þann sóma sem Alþingi sýnir Háskólanum með þessari hátíðarsamkomu, heiti ég Alþingi því að Háskóli Íslands muni hér eftir sem hingað til leggja allt sitt af mörkum til að efla þá vitund og þann vilja sem þarf til þess að lýðræði og frjáls, gagnrýnin hugsun nái að blómstra á Íslandi. Og hann óskar einskis frekar en eiga samstarf við Alþingi um að skapa komandi kynslóðum Íslendinga þau skilyrði sem þær þurfa til að vera skapandi á sviði menningar, vísinda, efnahags og stjórnmála.

Sú hugsjón sem leiðir allt starf Háskóli Íslands er leitin að sannleikanum. Sú leit er endalaus – Sannleikann sjálfan, þann endanlega og stóra munum við aldrei fanga í net fræðanna. En virðingin fyrir sannleikanum og viðleitnin til að öðlast hlutdeild í honum eru forsendur þess að unnið verða farsællega að alþingismálinu, skólamálinu og verzlunarmálinu í hinni óráðnu framtíð þjóðarinnar og hins íslenska þjóðríkis.

Megi Alþingi Íslendinga vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann um alla framtíð.


Back to top