Köllun Háskóla Íslands (Háskólahátíð 2000)

Ávarp Páls Skúlasonar rektors Háskóla Íslands á Háskólahátíð 8. september 2000

Köllun Háskóla Íslands hefur frá upphafi verið ein og söm: Að þjóna íslensku þjóðfélagi með rannsóknum og kennslu á öllum þeim fræðasviðum sem hann hefur burði til að sinna. Saga Háskólans sýnir að hann hefur verið köllun sinni trúr. Á öldinni sem er að líða hefur fjöldi háskólafólks — kennarar, nemendur, starfsfólk og velunnarar skólans — lyft Grettistaki við uppbyggingu fræðasviða sem skipt hafa sköpum fyrir þá umbyltingu sem orðið hefur í menningu þjóðarinnar í veraldlegum sem andlegum efnum. Þetta uppbyggingarstarf hefur að mestu verið unnið í leynum; ekki í fjölmiðlum, ekki á markaðstorgi viðskiptanna. Það hefur verið unnið í hugum og samskiptum háskólafólks í kennslu- og rannsóknarstofum þar sem friður gefst til að tala og hlusta, ræða saman, velta vöngum og spyrja án þess að búast samstundis við svari, skoða hlutina, hvaða hluti sem vera skal, og hugsa um þá, vegna þess hve merkilegir þeir eru í sjálfum sér.

Háskóli — universitas — er staðurinn þar sem merkileiki allra hluta og tilverunnar sjálfrar á að njóta óskiptrar athygli — þar sem við öll saman og hvert fyrir sig einbeitum okkur að því að leita skilnings á veruleikanum og sjálfum okkur. Háskóli Íslands hefur verið slíkur staður og með starfi sínu hefur hann brotið íslenskri þjóð nýjar leiðir inn í framtíðina, skapað skilyrði fyrir fólk til að menntast og nýta sér nýja tækni og uppgötvanir sem gjörbylt hafa þjóðfélaginu. Þessu hefur hann áorkað með þrennu móti: Í fyrsta lagi með því að kynda undir fræðilegum rannsóknum kennara skólans og samstarfi þeirra við erlenda háskóla, í öðru lagi með því að veita nemendum sínum trausta og góða þjálfun í fræðilegum vinnubrögðum og í þriðja lagi með því að mennta fólk til að takast á við ýmis sérhæfð verkefni í samræmi við þarfir þjóðfélagsins.

Fyrsti rektor Háskólans, Björn M. Ólsen, lýsti þessu svo:

Markmið háskóla er fyrst og fremst þetta tvennt:
1) að leita sannleikans í hverri fræðigrein fyrir sig, — og
2) að leiðbeina þeim sem eru í sannleiksleit, hvernig þeir eigi að leita sannleikans í hverri grein fyrir sig.
Með öðrum orðum: háskólinn er vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun.

Hann bætir svo við þriðja atriðinu:

Enn hafa flestir háskólar hið þriðja markmið, og það er að veita mönnum þá undirbúningsmenntun, sem þeim er nauðsynleg, til þess að geta tekist á hendur ýmis embætti og sýslanir í þjóðfélaginu. Þetta starf háskólanna er mjög nytsamlegt fyrir þjóðfélagið. Það er ekki, eða þarf að minnsta kosti ekki að vera strangvísindalegt, heldur lagar það sig eftir þörfum nemendanna.

Háskóli Íslands hefur sannarlega starfað í þessum anda. Hann hefur smám saman orðið æ öflugra rannsóknasetur; hann hefur líka orðið æ öflugra menntasetur þar sem fólk fær alhliða þjálfun til vísindalegra starfa og sannleiksleitar, og hann hefur einnig orðið sífellt fjölbreyttari þjónustumiðstöð hvers kyns fræðslu og þekkingarsköpunar sem fyrirtækjum og stjórnvöldum landsins hefur nýst á ótal vegu. Og þetta þrennt - rannsóknir í þági vísindanna, menntun í þágu þroska einstaklinganna og þjónusta við fyrirtæki og stjórnvöld landsins - hefur haldist í hendur og skapað ómælanlegan arð fyrir íslenska þjóð. Ávextirnir blasa við okkur í öflugu starfi þjóðarinnar þar sem ungt vísindafólk er hvarvetna að verki, fólk sem hefur með undraverðum hætti endurmótað íslenska menningu, auðgað atvinnulíf landsins og skapað nýjar forsendur fyrir hagnýtingu vísindanna í þágu þjóðarinnar. Ytri aðstæður hafa vissulega verið hagstæðar þessari þróun, en það þarf menntun og hugvit til að færa sér þær í nyt. Og það er innri orka uppvaxandi kynslóða sem gerir drauminn um blómlegt og skapandi íslenskt mannlíf að veruleika.

Styrkur Háskóla Íslands felst allur í hæfni hans til að virkja orku ungs fólks, beina henni inná brautir vísinda, mennta og rannsókna sem gefa af sér óendanlega möguleika fyrir gróskuríkt mannlíf á Íslandi. Framtíðin veltur á því hvernig að því virkjunarstarfi verður staðið.

Háskóli Íslands veit hvernig hann vill standa að því verki.

Hann vill fjölga valkostum í grunnnámi, auka þverfaglegt nám og nýta nútímatækni eftir föngum við skipulag náms og kennslu. Ný kennslumiðstöð Háskólans á að gegna hér lykilhlutverki og auðvelda kennurum og nemendum að auka gæði náms og kennslu. En mikilvægasta stefnumál Háskólans er ekki bundið grunnnámi, heldur framhaldsnámi - meistara- og doktorsnámi. Á þessu sviði er að verða bylting í starfi Háskólans, sem skiptir sköpum fyrir framtíðina. Ég nefni nokkrar tölur til fróðleiks: Á árinu 1990 voru brautskráðir 4 framhaldsnemar, allir frá heimspekideild, á árinu 1999 voru þeir orðnir 64 frá sex deildum skólans. Fyrir þremur árum voru innritaðir 164 nemendur í framhaldsnám, á árinu 1999 voru þeir orðnir 484 og á yfirstandandi skólaári er fjöldi þeirra kominn yfir 500.

Það á að vera forgangsverkefni að stórefla og bæta framhaldsnám við Háskólann á næstu fimm árum. Ástæðan er ofureinföld: Í meistara- og doktorsnámi koma þrjú meginmarkmið Háskólans saman í eitt: Efling rannsókna, meiri menntun og aukin þjónusta við landsmenn, því verkefni nemendanna tengjast oft viðfangsefnum í íslensku þjóðlífi. Á næstunni verður lögð fram skýrsla um meistara- og doktorsnám og áætlun Háskólans um uppbyggingu þess. Eitt meginmarkmiðið er að á árinu 2005 verði eitt þúsund nemendur að minnsta kosti innritaðir í meistara- eða doktorsnám og að af þeim hópi brautskráist um 200 kandídatar árlega.

Til viðmiðunar við þessar tölur má nefna að á árinu 1999 voru brautskráðir um 1000 kandídatar með fyrstu háskólagráðu. Framhaldsnemar voru þá um 8% af heildarfjölda brautskráðra. Á árinu 2005 er stefnt að því að um fimmtungur allra brautskráðra nemenda verði úr meistara- eða doktorsnámi. Og þegar því takmarki verður náð stendur Háskóli Íslands sannarlega undir því nafni að vera öflugur rannsóknarháskóli á alþjóðlega vísu.

Þarf að sannfæra stjórnvöld og almenning um að þetta sé ekki aðeins æskilegt og raunhæft, heldur lífsnauðsynlegt íslenskri þjóð til að tryggja lífsskilyrði hennar í framtíðinni? Þarf að sannfæra einhvern um mikilvægi menntunar og þekkingar fyrir afkomu og örlög þjóðarinnar? Lífsbarátta hennar hefur verið hörð og mun enn verða hörð á þeirri öld sem er að ganga í garð, kannski harðari en nokkurt okkar grunar. Því fer fjarri að sjálfgefið sé að íslensk þjóð með tungu sína, sögu og sérstöðu muni lifa af í holskeflu þeirrar heimsvæðingar sem gengur yfir veröldina. Margt bendir til hins gagnstæða. En hver sem leiðir hugann að þessum aðstæðum veit um hvað baráttan mun snúast: Þekkingu, menntun og sjálfsvitund okkar og þeirrar kynslóðar sem við ölum upp. Þess vegna spyr ég: Munum við, sem nú er falið að taka ákvarðanir um framtíðina, axla ábyrgðina sem á okkur hvílir? Eða munum við skjóta okkur undan því sem gera þarf?

Háskóli Íslands hefur frá upphafi verið verkfæri íslenskrar þjóðar til kraftaverka. Hann veit að þjóðin þarfnast æ fleiri vel menntaðra einstaklinga til að berjast fyrir lífi hennar og tilverurétti í samfélagi þjóðanna. Hann veit að fjöldi ungra karla og kvenna er reiðubúinn að leggja allt sitt af mörkum í þeirri lífsbaráttu. Hann veit hvernig á að tryggja þeim aðstöðu til þess að þroskast og takast á við vandann sem við er að etja.

Háskóli Íslands ætlar sér áfram að vera köllun sinni trúr. Hann mun á næstu árum gera allt sem er á hans valdi til að auka svo þekkingu og þroska landsmanna að þeim verði allir vegir færir í framtíðinni. Þessi ásetningur Háskólans sprettur ekki aðeins af innri styrk hans, heldur af þeirri þekkingar- og sjálfstæðisþrá sem gert hefur íslenska þjóð að því sem hún er og skapað henni það verkfæri sem er Háskóli Íslands.

Páll Skúlason


Back to top