Upphaf nýrra tíma

Viðtal sem Kolbrún Bergþórsdóttir tók fyrir Morgunblaðið 11. október 2008 rétt eftir hrun bankanna.

Við erum að lifa upphaf nýrra tíma. Taumlaus markaðshyggja hefur leitt til þess að fjárhagskerfi heimsins riða til falls. Það eru að verða örlagaríkar og erfiðar breytingar á heiminum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist í sögunni og heimspekingar hafa gjarnan glímt við að átta sig á slíkum breytingum, hvaða heimur er að líða undir lok og hvers konar heimur er að fæðast,“ segir Páll Skúlason heimspekingur aðspurður um afleiðingar hinna gífurlegu efnahagsörðugleika sem heimurinn stendur frammi fyrir.

„Slíkar sviptingar hafa skelfilegar afleiðingar fyrir fjölda fólks og heilu þjóðfélögin. En um leið er heimurinn að taka á sig nýjar myndir, félagskerfin og hugsunarháttur fólks mun breytast. Verkefnið núna er að átta sig á þeirri endursköpun samfélagsins sem verður að fara fram í kjölfarið á því sem nú er að gerast.“


Hvers konar endursköpun?

„Það að endurskapa okkar sameiginlega veruleika. Það er upplausn á mikilvægu sviði hins sameiginlega veruleika okkar, nefnilega fjármálaheiminum. Sú upplausn veldur glundroða á öðrum sviðum samfélagsins vegna þess að peningar eru alls staðar nauðsynlegir til að afla lífsnauðsynja og greiða fyrir viðskiptum milli einstaklinga og þjóða. Mannfélagið er ein heild þannig að ef upplausn skapast í einu kerfi, eins og fjármálakerfinu, þá fer hún yfir á svið stjórnmálanna og jafnframt inn á heimilin. Þá er líf okkar í uppnámi, bæði einkalíf og sameiginlegt líf okkar. Þetta krefst flókinnar endurskipulagningar, sem þarf að eiga sér stað á öllum sviðum og kerfum samfélagsins.“

Nýir möguleikar
Verður þetta langt erfiðleikaskeið?

„Það mun taka okkur mánuði og jafnvel nokkur ár að vinna úr þeirri reynslu sem við erum að ganga í gegnum núna. Þjóðfélagið þarfnast róttækrar endurreisnar. Bankakerfið okkar sem var orðið mjög stórt og teygði anga sína víða er hrunið og það tekur óhjákvæmilega langan tíma að endurreisa það. Stjórnvöld hafa réttilega hamrað á því að við höfum allar forsendur til að vinna okkur vel út úr þessu. Þar er sameiginleg menning okkar gífurlegur styrkur, það að við eigum okkar land og sögu og höfum sterka sjálfsvitund sem þjóð. Náttúrulegar auðlindir landsins eru miklar og við þurfum að nýta þær af skynsemi og virðingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Við eigum öflugt og framsækið menntakerfi sem skiptir sköpum fyrir framtíðina. Og þótt við Íslendingar séum sundurleitur hópur sjálfstæðra einstaklinga þá hefur margsýnt sig að þegar á reynir vinnum við saman og við munum líka gera það núna.“

Ef við lítum til baka höfum við þá ekki verið að lifa í samfélagi sem einkennst hefur af mikilli græðgi?

„Græðgi er löstur, alveg eins og taumlaus metorðagirnd og þrá eftir æ meiri völdum og frægð. Ef slíkir lestir eru ráðandi þá spillir það okkur og skemmir fyrir lífi okkar. Þess vegna megum við aldrei gera auðinn eða önnur veraldargæði að meginmarkmiði. Við höfum samt tilhneigingu til að gera það og sennilega gert það ótæpilega að undanförnu þegar tækifæri hafa gefist til ævintýralegra fjárfestinga erlendis. Um leið og veraldargæðin fá svona mikið pláss í lífi okkar þá er hættan sú að við vanrækjum hin raunverulegu verðmæti sem gefa lífinu gildi og eru þess virði að lifa fyrir, andleg og siðferðileg gæði.“

Er eitthvað jákvætt í stöðunni?

„Það er eitthvað jákvætt við flestar breytingar. Þær opna fyrir nýja möguleika og krefjast þess að við tökum á og skoðum okkar mál, bæði sem einstaklingar og heild. Það segir sig sjálft að áður var ekki allt í himnalagi í samfélagi okkar. Alls konar vandamál voru dulin og falin í þeim heimi sem nú er að vissu marki að hrynja. Ég held að fjármálakreppan stafi að verulegu leyti af því að stjórnmálasviðið brást og það reglukerfi sem þarf til að halda utan um mannfélagið. Hér er ég ekki bara að tala um íslenska ríkið heldur ríki veraldarinnar. Ég er sannfærður um að staðan núna gefur tilefni til að endurskoða og bæta heim stjórnmálanna ekki síður en heim fjármálanna. Og það er sannarlega jákvætt.“

Á að leita að sökudólgi?

„Ekki núna. Mistök hafa verið gerð, ábyrgðarkennd og fyrirhyggju hefur skort, en enginn hefur ætlað sér að standa fyrir þessu. Mistökin hafa gerst af öðrum ástæðum. Við höfum ekki hugsað rétt um okkar sameiginlegu mál. Ég hef sterka tilhneigingu til að álíta að sú hugmyndafræði sem hefur drottnað yfir þjóðfélagi okkar og heiminum undanfarið sé háskaleg mannlegu siðferði. Ég kalla þessa hugmyndafræði „markaðshyggju“, en hún snýst um að líta svo á að öll mannleg samskipti séu viðskipti og að heimurinn snúist ekki um annað en að kaupa, selja og græða. Þessi boðskapur hefur dunið á okkur í mörg ár og er ekki heppilegur. Honum fylgja því miður oft óheilindi sem ógna og stuðla að upplausn hins sameiginlega veruleika okkar. Mikill áróður hefur verið rekinn gegn því opinbera og ríkisstofnunum sem hafa veikst á undanförnum árum og standa nú margar á brauðfótum sem er afar slæmt. Til að reka þjóðfélagið þarf sterkar opinberar stofnanir sem standa vörð um sameiginlega hagsmuni okkar, almannaheill. Það er löngu tímabært að endurskoða hvernig við tökum ákvarðanir í sameiginlegum málum og skipuleggjum starfsemi hins opinbera.

En það sem er mikilvægast núna er að leiða hugann að þeim grundvallargildum sem við vitum öll að skipta mestu máli. Mikilvægast er að við deilum lífinu, njótum þess að lifa saman en séum ekki í endalausri samkeppni og átökum. Það er gömul speki frá Aristótelesi að án ástvina myndi enginn kjósa að lifa. Það sem mestu skiptir í mannlegum samskiptum og er svo dýrmætt fyrir okkur öll er að treysta hvert öðru og geta reitt okkur hvert á annað. Sem einstaklingar erum við veikburða verur, sem eru sífellt háðar því að þiggja stuðning og hjálp annarra. Þetta þurfum við að rækta núna.“

Eigum ekki að lifa fyrir peninga
Margir eru niðurdregnir og kvíðnir. Skiptir máli að vera bjartsýnn og glaður eða ber það vott um kæruleysi?

„Við hljótum öll að vera niðurdregin og kvíðin vegna þeirra áfalla sem við erum að verða fyrir bæði sem einstaklingar og sem þjóð. En það skiptir líka máli að vera vongóð og leiða hugann að þeim tækifærum sem nýjar aðstæður geta gefið okkur. Og slíkt ber síður en svo vott um kæruleysi.

En mestu skiptir núna að horfa raunsætt á veruleikann. Við erum að glata veraldlegum fjármunum sem við þurfum sannarlega á að halda. Peningar eru eitt mikilvægasta tækið sem við höfum til að afla lífsnauðsynja fyrir fjölskyldur okkar og skipuleggja viðskipti og verslun. Það á ekki að gera lítið úr peningum en við eigum ekki að lifa fyrir þá. Á undanförnum árum hefur verið kynt undir þeirri skoðun að við eigum að lifa til þess að verða auðug af peningum og veraldargæðum. Biblían fjallar um dansinn í kringum gullkálfinn og sagan endurtekur sig. Við föllum iðulega í þá gryfju að gera of mikið úr veraldlegum gæðum. Við megum ekki gleyma því að við lifum ekki fyrir peninga. Tilgangur lífsins er ekki falinn í þeim.

Við verðum að þróa þroskaðri og heillavænlegri lifnaðarhætti með áherslur á varanlegri gildi og markmið en verið hefur hin síðari ár.“

Stundum er sagt að mótlæti þroski fólk og herði. Er ekki heilmikið til í þessu?

„Við þroskumst fyrst og fremst af því að taka á þegar við verðum fyrir reynslu sem við höfum kannski ekki endilega óskað eftir. Þá horfumst við í augu við erfiðleika og vandamál og það er þroskandi. Þetta er eitt af grunnlögmálum lífsins. Núna erum við að ganga í gegnum slíkan reynslutíma, ekki bara sem einstaklingar heldur sem þjóð. Við erum að lifa mjög undarlega og merkilega tíma. Við vöknum skyndilega upp við gjörbreyttar aðstæður í okkar heimi. Þetta er eins og að fá verulegt högg og þá verða menn að bregðast við. Nú reynir á krafta okkar og hvað við getum. Við þessar aðstæður verða menn að endurskoða sínar fyrri hugsanir, hugsa upp á nýtt og spyrja sig margra spurninga.“

Stöndum á tímamótum
Í svona erfiðum aðstæðum verður fólk göfugra eða verður það sjálfselskara? Hvað heldur þú sem heimspekingur?

„Fólk verður göfugra og tilbúið að rétta öðrum hjálparhönd. Það veit að í húfi eru grunntengsl okkar og gildi sem tengjast sjálfri mennsku okkar. Við getum ekki unnið okkur út úr þessum ógöngum nema við stöndum saman. Grunngildin tengjast samstöðu og trausti. Við þurfum að læra að treysta hvert öðru, vinna saman og tala saman. Það sem virðist hafa farið úrskeiðis, sérstaklega í fjármálaheiminum, er traustið sem er af siðferðilegum toga. Það sem gerðist í samskiptum okkar Íslendinga við Breta nú á dögunum er gott dæmi um bresti í mannlegum samskiptum. Þegar menn hætta að treysta hver öðrum er voðinn vís.

Við Íslendingar verðum að axla ábyrgð gagnvart vinaþjóðum okkar og treysta eftir megni uppbyggileg samskipti við þær á næstunni. Við þurfum sannarlega á stuðningi þeirra að halda.“

Það er stundum talað um viðskipti og peningamarkað eins og þar gildi önnur lögmál en í mannlegum samskiptum. Þú ert að segja að þar eigi að gilda sömu lögmál.

„Það er grundvallaratriði. Peningar eru tæki til ópersónulegra samskipta, það er þeirra kostur. Þeir eru ómissandi til þess að við getum átt í viðskiptum við aðila sem við þekkjum ekki neitt en verðum að treysta engu að síður. Þannig skapa peningar forsendur fyrir mikilvægum samskiptum á milli manna og þjóða. En um leið skapa þeir ákveðinn ósýnilegan múr á milli okkar vegna þess að við getum ekki deilt þeim eins og við getum deilt hugmyndum okkar, tilfinningum og skoðunum. Þeir eru tæki fyrir hvert okkar fyrir sig til að gera eða öðlast það sem okkur langar til. Um leið og þeir eru sameiningarafl þá eru þeir hugsanlegt sundrungarafl, og sérstaklega þegar mikið fjármagn er komið á fárra manna hendur. Þá er hætta á ferðum fyrir mannlegt samfélag.

Við stöndum á tímamótum. Við erum að verða fyrir mjög erfiðri reynslu sem er raunverulegt merki þess að ákveðinn heimur er að líða undir lok og nýr að fæðast. Það er í sjálfu sér gífurlega spennandi. Við eigum að leggja áherslu á siðferðileg gildi sem eru alls staðar í mannlífinu: ástina, vináttuna og réttlætið. Þetta er stærsta verkefni okkar. Í heiminum er miklu meira af ranglæti en réttlæti. Við þurfum að vinna gegn ranglæti og reyna að tryggja sem allra mest réttlæti í heimi þar sem fólk er að tapa miklu og veit ekki hvernig það á að komast af. Þarna reynir á sameiginlegt siðferði þjóðarinnar og þar skipta réttlætiskenndin og sanngirnin miklu máli.“

Hvað er dýrmætt?
Á erfiðum tímum líður mörgum betur þegar þeir lesa góðar bækur. Ef einhver kæmi til þín og spyrði: Hvað á ég að lesa núna? hvaða svar fengi hann?

„Það er lítil bók sem ég myndi mæla sérstaklega með og hef bent mörgum á. Hún heitir Leitin að tilgangi lífsins og fjallar með mjög eftirminnilegum hætti um gildi og tilgang lífsins undir hörmulegum kringumstæðum. Í þessari bók segir Viktor E. Frankl sem lenti í fangabúðum nazista sögu sína. Hann fjallar um það hvernig fólk hagaði sér við hinar erfiðustu aðstæður og hvernig því tókst að sjá tilgang í því smáa og einfalda sem gerði að verkum að lífið varð þess virði að lifa því, þrátt fyrir allt.

Við erfiðar aðstæður verður fólk að halda ró sinni og spyrja sig: Hvað er það sem skiptir mig mestu máli? Hvað er dýrmætt? Hvaða samskipti og við hvern? Hvað gefur lífinu gildi og tilgang? Án hvers vildi ég ekki lifa? Við allar aðstæður getur maðurinn fundið eitthvað sem er honum óendanlega dýrmætt. Það eru oft smáir hlutir í mannlegum samskiptum sem eru það dýrmæta. En dýrmætast af öllu er að fólk eigi hvert annað að og sýni samhug í verki.“

Upphaf nýrra tíma

Viðtal sem Kolbrún Bergþórsdóttir tók fyrir Morgunblaðið 11. október 2008 rétt eftir hrun bankanna.


Tengdar greinar

Back to top